ja.is er svarið

Það var mjög skondið að sjá hversu glettilega Björn Bjarnason lék Sölva í Íslandi í dag í gærkvöldi. Þegar Sölvi spurði Björn um símanúmer hjá Gordon Brown. " Er nú svo illa komið fyrir blaðmönnum á Íslandi að þeir þurfa að fá símanúmer í útlöndum hjá íslenskum ráðamönnum" svaraði Björn að bragði og benti Sölva á að blaðamannafundir væru haldnir nær daglega á vegum bresku ríkisstjórnarinnar og hægur vandi að spyrja áleitinna spurninga þar. Sölvi varð hálf skrítinn á svipinn og sagði í hvelli "þAKKA ÞÉR FYRIR". 

Það eru margar spurningar sem þarf að fá svar við og undarlegast finnst mér að enginn sé spurður um það að einn aðili á Íslandi í gegnum mörg eignarhaldsfélög geti fengið að láni 1.000 miljarða kr hjá íslensku bönkunum þrem. Segi og skrifa 1.000 miljarða króna. Nú er að fletta uppi í símaskránni og það þeirri íslensku.


Hvers vegna flýja konur landsbyggðina?

Hvers vegna flýja konur landsbyggðina? Þessari spurningu ætlar háskólasamfélagið að svara hafi ég ekki misheyrt auglýsingu í útvarpinu áðan.
    Hvers vegna flýja menn umönnunarstéttirnar? Hvers vegna flýja menn yfirleitt? Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. 
    Ég er að velta fyrir mér orðinu flýja í þessu samhengi hvort það yfir höfuð eigi við. Væri ekki réttara að segja: Hvers vegna renna menn á lyktina þar sem kraumar í kjötkötlum "velmegunarinnar" og taka staf sinn og mal og setjast að veisluborði. Í mínum huga er hugtakið að flýja grundvallað á því að eitthvað sem manni stendur ógn af sé á eftir manni og sá einn kostur í stöðunni að taka til fótanna sem er að mínu mati afar skynsamlegt. 
    Ef að konur eru að flýja landsbyggðina þá hlýtur einhver að vera á eftir þeim sem þeim hugnast ekki. Kynjafræðingar myndu líkast til segja að hluti vandans væri kynferðisleg áreitni og þess vegna væru konurnar á flótta.     
    Líklegast hefur einhver þessara kvenna sem eru á flótta heyrt þennan húsgang af vörum karlpungs hangsandi í algjöru tilgangsleysi fyrir utan kaupfélagið:

Þótt veraldargengið sé valt
og veðrið andskoti svalt.
Með góðri kellingu
í réttri stellingu
bjargast yfirleitt allt.

    Reynist þetta rétt vera þá er flótti konunnar algjörlega óþarfur því þessi húsgangur varð einfaldlega til vegna þess að karlgarminum var farið að leiðast hörmungafréttir í fjölmiðlum og raulaði þetta fyrir munni sér.

    Einhvern grun hef ég um það þegar kólna fer í bólunum (Jónas Árnason) og kjötkötlunum að menn hætti að flýja eða réttara sagt hætta að renna á lyktina. Grun hef ég um það að tímarnir séu svolítið að breytast og "flóttinn" af landsbyggðinni, úr umönnunarstéttunum sé í allmiklum rénum. " You ain't seen nothing yet!" sagði forseti vor á sínum tíma og er ég honum hjartanlega sammála og þegar einmanna kona í algjöru tilgangsleysi fyrir utan kaupfélagið raular fyrir munni sér:

Nú veraldargengið er valt
og veðrið andskoti svalt.
Með meðreiðarsvein
ég verð ekki ein,
þá bjargast yfirleitt allt.

Er líkast til komið jafnvægi í þjóðfélaginu

    (Líta ber á limrurnar sem tjáningarform , hækju hins óttaslegna alþýðumanns í ólgusjó líðandi stundar frekar en framlag til bragfræðinnar eða eins og Kristín Einarsdóttir mannfræðingur sagði: Svona lagað er flótti frá raunveruleikanum)


Fram í dagsljósið, Davíð Oddsson

Það var hreint út sagt frábært að heyra viðtal við Davíð Oddsson á Stöð 2 í kvöld. Þarna kom maður til svara óhræddur við ríkjandi eða svífandi sjónarmið um málefni dagsins. Davíð er yfirburðamaður einfaldlega vegna þess að hann er óhræddur við ríkjandi efnahagstískusjónarmið og segir  það sem skynsemin ræður. Hann hleypur ekki eftir því sem alþýðan segir eftir að hafa hlerað skoðannakannanir sem bergmála ræður tækifærissinnaðra ráðamanna. Sá sem lendir í þoku og veit ekki hvert skal halda skal hafa það eitt að leiðarljósi að halda kyrru fyrir uns birtir til. Davíð er með innbyggt vitsmuna- og gps tæki sem margir gætu stimplað inn í sín leiðarkort í ólgusjó rávilltra spekinga. Leitaðu byggða þegar þokunni léttir

Ekkert náttúruleysi hjá Mogganum

Það er ábyrgðarhluti að reka heimili og hvað þá þjóðfélag. Ef við ætlum að lifa sæmilegu lífi í þessu samfélagi þá verðum við að nýta þær auðlindir sem við eigum. Það er göfugt markmið að geta lifað eingöngu á frægðinni einni saman og það væri notalegt að undirstöður lífs í okkar frábæra landi byggðust eingöngu á hugviti og listsköpun. En veruleikinn er sá að undirstaða byggðar og velferðar á Íslandi byggist á auðlindum okkar (jöklar og fiskurinn) og gerir okkur kleift að komast af og gerir okkur m.a. mögulegt að borga áskrift að Morgunblaðinu. Á bak við verðmæti hverju nafni sem þau nefnast er auðlind sem nýta verður og sá sem ekki hefur nema eina sýn í lífinu til farsældar fyrir fjöldann lendir í öngstræti. Á skal að ósi stemma. Við skulum syngja náttúrunni lof og þakka fyrir þá einstæðu möguleika að geta lagt heiminum til orkulindir sem umhverfinu eru þóknanlegar.
mbl.is Náttúra í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fischer jarðsettur á Blönduósi?

    "Skáksamband Íslands var stofnað á Blönduósi þann 23. júní 1925. Það var ári eftir að alþjóðaskáksambandið var stofnað úti í París. Íslenskir skákmenn hafa þess vegna verið tiltölulega snemma í því að mynda með sér samtök með tilliti til þess hve seint landið tók almennt að nútímavæðast." Þessi tilvitnun er tekin er af vefsíðunni "Skák á Íslandi". Þar sem skákmenn á Íslandi voru svona framsýnir sem sjá má meðal annars í ofanrituðu og eins að sameinast um að frelsa hinn ótrúlega Fishcer og berjast fyrir því að skapa honum griðastað á Íslandi væri ekki svo fráleitt að láta sér detta í hug að menn sameinuðust um að jarðsetja Fischer þar sem Skásambandið varð til.

    Komið hefur fram að vildarvinir Fischers vilji að hann verði jarðsettur í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum en þessum framsýnu mönnum má vera það ljóst að það mál mun vera erfitt að sækja og skapa leiðinlega og ómálefnalega umræðu í samfélaginu. Í því ljósi að skámenn Íslands sameinuðust á Blönduósi fyrir tæpum 83 árum væri ekki svo fráleitt að láta sér detta þetta í hug. Ef þessi hugmynd yrði nú að veruleika þá er ekki ólíklegt að hún myndi geta sáð örlitlu sameiningarfræi í hugarheim Húnvetnskra kónga og drottninga. Fischer var sérstæður og það eru Húnvetningar. Mér fyndist þessi leikur afar sterkur í þeirri stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir. Í mínum huga eru allir velkomnir í Húnaþing hvort heldur er til lengri eða skemmri dvalar.


Þessir föstudagar

Þessir föstudagar eru þessir föstu dagar í tilverunni þegar venjulegri vinnuviku lýkur og helgin blasir við. Þetta eru þessi föstu tímamót sem maður ætlar að gera svo ofboðslega mikið. Maður ætlar sko að skemmta sér, taka til í bílskúrnum, vera almennilegur við fjölskylduna svo eitthvað sé nefnt. Í stuttu máli þá ætlar maður ekki að missa af neinu og gjörnýta þessa föstu frídaga í botn, ekkert má fara til spillis. Þegar maður vaknar til vinnu á mánudegi og fer yfir helgina í huganum. Gekk allt upp; skemmti ég mér alveg hreint ofboðslega þannig að næringarástand sálarinnar er í góðu ástandi. Gerði ég allt sem væntingar  mínar og annarra stóðu til? Reyndar hef ég ekki hugsað svona yfirleitt en byrjaði á því seinnipartinn í dag. Þessir föstu dagar í lífi sérhvers manns eru hver öðrum líkir. Leitin að litla manninum sem lendir undir í samfélaginu heldur áfram. Hann er söluvænn og skilar arði því við sem nærumst á lífsreynslu hans höfum svo margt um það að segja hvernig farið er með hann og hjálpumst í sameiningu að segja frá vonsku heimsins. Leitin að litla manninum er lofsverð ef hún skilar þeim ágæta manni eitthvað áleiðis. Vegna þess að ég byrjaði að hugsa svona í dag hef ég ákveðið að hætta því næsta föstudag og halda bara áfram að hlakka til þess að láta Guðmund Andra Thorsson svæfa mig á sunnudagskvöldum með Andrarímum.


Saga úr sveitinni

Enn er kominn miðvikudagur og Rúnar búinn að koma með Gluggann. Ekkert orti kall að þessu sinni heldur bar hann mér vísu eftir hann Erlend G Eysteinsson á Stóru-Giljá. Vísan fjallar um "Giljárundrið" hann Hávarð sem einhver hugvitsamur maður gaf á sínum tíma starfsheitið legsnyrtir. Þarf endilega að fá vísuna sem tengist þessu starfsheiti Háva. Hér þarf ég í hendingskasti að gera bragabót því Rúnar rukkaði mig um vísu  í miðju bloggi og sagði ég honum sem var að ég væri orðin andlaus á þessu sviði. Þar sem ég hnaut um kirkjugarðinn í tvígang í vísu Erlendar segir Rúnar. " Ég er hræddur um að þú verðir að breyta þessum pistli þínum því ég hef sett saman vísu:

Hér hjá Jóni um stund ég sat
og horfði á ísbjörnshúna.
Áður vísur ort hann gat
sem hann ekki getur núna.


Það var nefnilega það!  Hávi heitir Hávarður og því hægt að kalla hann Varða sem hirðir kirkjugarða. Mér datt þetta nú bara svona í hug eftir tæklinguna frá Rúnari. 
    Rúnar orti, Glugginn kom, sumarið heldur áfram og sem betur fer gægist annað slagið inn til mín sála með anda í brjósti. Miðvikudagar eru ekki sem verstir.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband